Triglav og slóvenska leiðin í Norðurveggnum

Eftir rétt tæplega árs búsetu í Slóveníu er alveg kominn tími á að komast almennilega í fjöllin hérna. Síðasta ár fór meira og minna í endurhæfingu á hné og því var eitthvað lítið um lengri og erfiðari fjallaferðir þar til núna í vor. Slóvenar eru mikil fjalla- og útivistarþjóð og margir yfirburða fjallamenn og konur hafa komið héðan. Til marks um það hversu miklu máli fjallamennska skiptir fyrir þjóðarstoltið er alpaklúbburinn rekinn sem íþróttafélag og tilheyrir íþrótta og ólympíusambandinu. Hér er vel haldið utan um efnilega klifrara og lengi vel vel voru farnir þjóðarleiðangar á erlenda grundu með góðum árangri. Eitt af kennileitum landsins er Triglav er hæsta fjall Slóveníu (2863 m.y.s.), það tilheyrir Julian alpafjallgarðinum en fjallgarðarnir þrír, Julian alparnir, Karawanks og Kamnik alparnir eru hluti af austasta hluta Alpanna. Aðgengi að góðum leiðum er frábært og náttúrufegurðin svíkur engan. Aftur af norðurhliðinni en þar er að finna yfir 130 klifurleiðir og varíanta og hér á árum áður var mikil keppni á milli nágrannaþjóðanna að frumfara leiðir í norðurveggnum og þar er m.a. Að finna þýsku leiðina, Baverískuleiðina, Slóvenskuleiðina og síðar færðist keppnin yfir á alpaklúbbana á svæðinu. Fésið er kalksteinn (limestone) og spannar þrjá km á lengdina og gnæfir heilan kílómeter yfir Vrata dalnum þar sem það er hæst. Þetta er nokkuð auðvelt klifur og gráðast 3+ með tveimur spönnum sem mætti flokka upp í fjórðugráðu og telur leiðin 800 hæðarmetra. Hún er því vel fær þeim sem hafa einhvern bakgrunn í alpaklifri og í þokkalega góðu formi. Fyrir á sem hafa ekki prófað slíkt áður að þá er auðsótt mál að prófa getustigið í styttri leið áður en haldið er í Norðurvegginn því af nógu er að taka. Leiðin var fyrst farin af fjallaleiðsögumönnum sem voru við störf rétt fyrir aldamótin 1900 og þá frá Trenta dalnum samkvæmt heimildum. Í dag er þetta vinsælasta leiðin á svæðinu og ef til vill eins og Hvannadalshnúkur okkar Íslendinga, eitthvað sem flestir fjallamenn láta á reyna að minnsta kosti einu sinni.

Slóvenska leiðin er vel fær þeim sem hafa einhvern bakgrunn í alpaklifri og eru í þokkalega góðu formi.

Alpaklifur er uppáhalds greinin mín innan fjallamennskunnar og ég hef saknað þess mikið síðasta árið, ég var því full eftirvæntingar og hlakkaði til að eyða deginum með Ales. Ég er búin að hamast við að koma mér í form aftur í endurhæfingunni og nú var komið að því að brjóta þennan múr. Ég hef aðeins þurft að hafa fyrir þessu þar sem taugaskaði hægði aðeins á öllu ferlinu og því var aðal markmið mitt að klifra aftur í mig kjarkinn og komast aftur af stað.

 Með gleðina að vopni, afmælisdag í farteskinu og besta félagsskapinn lögðum við af stað í leiðina. Ég þurfti smá tíma til þess að ná flæði í hreyfingarnar og með hverri spönninni varð þetta betra. Eins og áður sagði er leiðin ekki tæknilega erfið og vel fær flestu fjallafólki sem hafa gaman af klifri. Það er helst lengdin sem krefst úthalds en þetta er að meðaltali 5-7 klst klifur eftir varíant og aðstæðum. Öryggi í hreyfingum er mikill kostur eins að hafa gott flæði, skilvirkni og sjálfstraust. Þessi leið og fleiri á fésinu eru þess eðlis að klifrað er í stífum skóm eða “approach” skóm sem eru hannaðir til þess að klífa slíkar leiðir en á Íslandi oft seldir sem léttir gönguskór. Skór með miklum veltisóla eru ekki heppilegir þar sem gott er að geta smeygt tánni inn í þröngar smugur eða tyllt á nibbur eða mjóar syllur. Annar öryggisbúnaður er svo hjálmur og belti fyrir utan það þarf línu, fleyga, slinga og karabínur en ef ferðin er með leiðsögumanni að þá sér hann um þann þátt. Það að ráða góðan leiðsögumann til þess að taka fyrstu skrefin með er ómetanlegt og fyrir þá sem vilja læra getur það verið eins og góður mentor.

Það voru ennþá smá snjólænur í leiðinni sem buðu uppá létt snjóklifur þar sem nóg var að notast við eina exi. Snjórinn er farinn að losna frá víða og því smá trický að komast frá snjó yfir á kletta á sumum stöðum og vissara að tryggja vel því enginn vill detta ofan í holrýmið sem myndast á milli. 

Eftir að við kláruðum leiðina héldum við áleiðis á topp Triglav. Þar sem það er heldur í lengra lagi að taka báða áfangana í einu að þá gistir fólk jafnan í einum af fjórum fjallaskálum sem eru þarna á leiðinni en í þetta skiptið héldum við beint á toppinn. Hryggurinn að toppnum er stórskemmtileg via ferrata leið þar sem hægt er að klippa sig inn í stálvíra þar sem leiðin er hvað mest berskjölduð eða brött. Það er ennþá snjór á hryggjunum en við vorum heppin með að það var svo heitt þennan dag að við sluppum alveg við að setja broddana undir og góð festa var í hverju skrefi. Það voru fáir á ferli þennan dag en við hittum c.a. 10 aðra á leiðinni enda full snemmt í seasoninu. Eftir dásamlega stund á toppnum héldum við niður í skála þar sem við fengum okkur smá hressingu áður en við lækkuðum okkur niður í Krmadalinn og tókum við því létta traversu yfir fjallgarðinn.

Næsta markmið hjá mér að halda von bráðar í Germönsku leiðina sem er stiginu erfiðari og gaman er að vinna sig jafnt og þétt að fyrra getustigi. Þolinmæði þrautir allar vinnur eins og einhver sagði og það eru forréttindi að búa á stað með slíkan bakgarð. 

 

Fyrir þá sem hafa áhuga á að takast á við þetta verkefni eða sambærilegt að þá er óhætt að senda okkur línu beint. 

Góðar fjallastundir!

Vilborg Arna