Vorið 2020 héldum við vinirnir á kayak sjóleiðina út í víkurnar í þeirri von að geta skoðað víkurnar á skíðum og skíðað einhverjar góðar línur. Víkurnar ganga inn í Víknafjöll og standa reisuleg fjöll á við Skálavíkurhnjúk 1129 m og Grímlandsfjall ásamt skemmtilegum fjallgarði sem ramma víkurnar inn.
Ferðin byrjaði með nokkrum símtölum dagana fyrir til Hlöðvers bónda á Björgum. Kíktum við svo í kaffi til hans en manngæska Hlöðvers og hinna ábúendanna að Björgum er öllum öðrum til eftirbreytni. Aðstoðuðu þau okkur að ferja kajakana og vistirnar niður að ósum undir Köldukinn þar sem snjóflóð hafði fallið í veginn fyrr um veturinn og hann því ófær óbreyttum bílum.
Við tók sigling meðfram bröttum bjarghamri Köldukinnar og áleiðis inn í víkurnar með nokkrum stoppum á leið til að skoða okkur um. Dvöldum við í nokkra daga á staðnum, skíðuðum og nutum kyrrðarinnar. Óhætt er að segja að ferðin hafi verið eftirminnileg en allt það sem skíðamaðurinn leitar eftir að vori var uppfyllt. Veðrið var með besta móti, færið eins og það gerist best og útsýnið frá fjallstindunum var hreint út sagt ómælt. Náðum við nokkrum góðum rennslum í fjöllunum í kring og eyddum kvöldunum við varðeld, siglingar eða láum yfir landakortum.