Fólk á fjöllum, fréttir & fróðleikur

Vertu memm!

Öræfaskólinn – náttúruvitund og fjallamennska

E

itt af markmiðum okkar Árna með stofnun Tindaborgar, var að gera okkur kleift að gera drauma ferðirnar okkar að veruleika. Síðasta sumar fórum við af stað með nýtt verkefni sem við höfum gengið með í maganum um árabil. Til liðs við okkur fengum við vinkonu okkar Erlu Guðnýju en hún hefur unnið með okkur við leiðsögn og er jöklajarðfræðingur og viskubrunnur. Við nefndum ferðina “Öræfaskólinn” en hann er vettvangur fyrir fólk á öllum aldri til að stunda útivist og fjallamennsku í Öræfum og um leið öðlast betri skilning á náttúrunni og ferlum hennar.

Öræfaskólinn er vettvangur fyrir fólk á öllum aldri til að stunda útivist og fjallamennsku og öðlast betri skilning á náttúrunni og loftslagsbreytingum

Námskeið Öræfaskólans er haldið í Öræfum og spannar fimm daga. Á þeim tíma náum við að halda í allskyns ævintýri og ná heildstæðri þekkingu á fjölbreyttri náttúru Íslands. Farið er í göngur og ísklifur á skriðjöklum Öræfajökuls, fjallgöngur og tjaldferð með allt á bakinu en umfram allt er lögð áhersla á fræðslu og samveru í öllum veðrum. Öræfaskólinn slær upp tjaldbúðum í Skaftafelli þar sem eldað er í sameiginlegu eldhústjaldi og þaðan er lagt í flesta leiðangra. 

Tjaldað í Morsárdal
Fimma eftir þverun Morsár
Á jökli

Öræfaskólinn er fyrir alla sem hafa gaman að útivist eða langar að byrja að stunda hana, elska náttúruna og langar að kynnast henni betur og komast í spennandi leiðangra. Í Öræfaskóla síðasta sumars gengum við m.a. um Skaftafell, fórum á tvo jökla, gistum í Morsárdal og skoðuðum Kjós og Bæjarstaðaskóg. 

Næsti Öræfaskóli er á dagskrá 5-8. ágúst og hefst námskeiðið í Skaftafelli. Verð fyrir nema er 79.900 og 89.900 fyrir aðra. Nánari upplýsingar um ferðina má finna á www.oraefaskolinn.is og á samfélagsmiðlum Öræfaskólans.

Ég hvet áhugasama lesendur til að skoða málið betur og vona að þið eigið viðburðaríkt úti-sumar.

Þið getið fylgst með okkur á samfélagsmiðlum @tindaborg og @oraefaskolinn

Kátur hópur á Falljökli