Náttúruhlaupabúnaður

Fatnaður og búnaður er stór hluti af skemmtuninni í öllum útivistarsportum. Útivistarfólk þreytist seint á að tala um dótið sitt og hvaða búnaður er bestur! Þó að eini nauðsynlegi búnaðurinn sem þarf til geta stundað náttúruhlaup séu góðir hlaupaskór þá er til alls konar búnaður sem gerir hlaupin skemmtilegri, öruggari og auðveldari!

Hér er listi yfir nokkra þeirra og myndir af þeim búnaði sem ég nota

 • Hlaupaskór

Það eru til ótal margar gerðir af hlaupaskóm og það er ekki öruggt að sömu skórnir henti mér og þér. Ég mæli með því að allir sem ætla að fjárfesta í hlaupaskóm fari í bæjarferð og máti nokkrar gerðir. Skór frá ákveðnum framleiðendum henta grönnum fótum og aðrir breiðum – mikilvægt er að þú finnir skó sem henta þér en eltir ekki tískustrauma eða merki.

Það sem gerir náttúru (utanvega) hlaupaskó frábrugðna götuhlaupaskóm er að þeir eru gerðir til þess að þola grófara álag (grjót, steina, mold, bleytu o.s.frv). Þeir eru með meira grip (svo þú rennir síður á blautum greinum og grjóti, og fáir einnig meira grip niður brekkur með lausu grjóti á eða snjó) og þeir eru stöðugri í ójöfnu undirlendi. 

Þá er gott að hafa í huga að hlaupaskór endast ekki endalaust og bæði notkun (og ekki notkun) hafa áhrif á gæði þeirra. Það þarf að skipta út skóm eftir ákveðinn fjölda kílómetra (400-800 km) og einnig eftir aldri þar sem efnið skemmist þó þeir séu geymdir inni í skáp (mismunandi eftir gerðum en ég myndi miða við ca.3 ár). Ég finn yfirleitt þegar það er kominn tími á nýja hlaupaskó þegar ég þreytist meira á hlaupum og fæ jafnvel vægan verk í hnén á hlaupum. 

 

@Scarpa
 • Hvað þarf að huga að þegar þú velur þér skó?

Hvorki ég né nokkur annar getur sagt þér hvaða skó þú átt að kaupa. Það eru til óteljandi mismunandi tegundir frá mörgum framleiðendum – og það er ástæða fyrir því að það er ekki til einn ríkishlaupaskór! Enginn fótur er eins og því þarft þú að máta nokkra týpur og það getur tekið nokkra tilraunir að finna hinn fullkomna hlaupaskó. Þar sem skórnir eru misjafnir þá ætla ég að lista upp nokkrum atriðum sem gott er að hafa í huga þegar þú velur þér skó – 

 • Mikilvægasta sem þú gerir – máta nokkrar gerðir og týpur 
 • Skórnir eiga ekki að vera of stórir né þröngir. Best ef þeir halda þægilega utan um fótinn
  • þegar þú byrjar að hlaupa í þeim þá aðlagast þeir fætinum þar sem efnið gefur aðeins eftir. 
 • Spurðu um DROP (yfirleitt 2 , 4 , 6 o.s.frv) þetta er millimetra munurinn á tá og hæl (s.s hækkun á hæl)
  • það getur haft áhrif á kálfaspennu að flakka á milli mikillar hækkunar.
 • Skór eru mis breiðir og fæturnir líka – skór sem henta mér henta ekki endilega þér
  • enginn getur sagt þér hvaða skór eru bestir.
 • Hlaupaskór eru mis þungir
  • þyngri hlaupaskór veita yfirleitt meiri vörn.
 • Hlaupaskór eru mis stífir
  • mér finnst gott að hlaupa í léttum skóm með lítilli dempun en aðrir vilja mikla dempun.
 • Hafðu í huga að oftast er Gore-tex /vatnsheldni í hlaupaskóm EKKI kostur þar sem hún heldur vatninu inni í skónum ef það nær að komast þangað.
  • getur þó verið gott að hafa hana í blautum snjóhlaupum.
@Raidlight vesti
@Johaug buxur
@Smartwool sokkar
 • Hlaupabuxur

Það eru til alls konar hlaupabuxur – sumar, vetrar, compression, þröngar, víðar o.s.frv.

Það er ástæða fyrir því að flestir hlaupa í þröngum spandex hlaupabuxum  (ekki bara af því þær sýna vöðvana!) – þær draga úr líkunum á nuddsárum þar sem þær draga úr núning með því að hylja alla húðina.

Ég mæli með því að hlaupa í þykkum hlaupabuxum á veturnar og þá getur verið gott að hafa þær með ullarblöndu og/eða með vindheldu efni framan á lærum. Á veturnar getur einnig verið gott að vera í primaloft/ullar pilsi (eða stuttbuxum) yfir hlaupabuxurnar til að halda hita á rassi og lærum. Margir hafa einnig komið sér upp þunnum merinoullar-stuttbuxum sem þeir nota undir hlaupabuxurnar þegar það er kalt í veðri. 

Hlaupabelti/vesti/bakpoki

Ef þú ætlar þér að hlaupa lengur en ca. 1 klst þá þarft þú að hafa með þér vatn og næringu og jafnvel auka flík (jakka eða vettlinga). Það er gott að hafa alla þá hluti á einum stað sem hefur ekki áhrif á hlaupin þín eða stílinn (t.d er óþægilegt að vefja jakkanum utan um mittið í löngum hlaupum). Það er gott að nota hlaupabelti fyrir vatn, gel og lykla en ef þú þarft að hafa með þér meiri búnað (t.d auka jakka) þá mæli ég með því að þú hafir á þér hlaupabakpoka.

Hlaupabakpokar eru sérhannaðir til að liggja vel upp að líkamanum, hreyfast lítið sem ekkert (og skapa þar með ekki áreiti á axlir og bak) og koma yfirleitt í stærðunum 5 – 12 L (L stendur fyrir lítra : rúmmál). Það er hægt að koma ótrúlega miklu dóti fyrir í 5 L poka en ef þú ert að hlaupa lengri hlaup yfir vetrartímann þá myndi ég mæla með 12 L poka þar sem þá þarftu að bera meiri búnað t.d brodda, auka fatnað o.fl.

 • Derhúfur

Frægastar fyrir að verja augu og húð fyrir sól en hafa varið mig fyrir roki, ringingu, snjókomu, hagléli og lélegum myndatökum! Í leiðindar veðri er gott að hafa der eða derhúfu á höfðinu (og buff eða húfu yfir til að halda henni á sínum stað) og er þá hægt að setja undir sig hausinn og arka með vindinn í fangið án þess að finna mikið fyrir því í andlitinu og í augunum.

 • Sólgleraugu

Þó að sólgleraugu séu sérstaklega hönnuð til að vernda augun fyrir sól þá gegna þau einnig öðru hlutverki í hlaupunum. Þau vernda augun fyrir vindi sem getur hæglega skert sjónina þar sem það er ekki gott að hlaupa með tárin í augunum. Það er þó heldur ekki gott að hlaupa með dökk gleraugu í lítilli birtu og sjá þar af leiðandi lítið vegna gleraugnana. Nýjasta tæknin í þessum bransa er gler sem er glært (eða allt að því) og dökknar í sól. Þessi tækni kallast m.a. Reactiv og ég nota mikið gleraugu frá Julbo sem eru 1-3 CAT (CAT stendur fyrir Categories, er yfirleitt frá 0-4 og segir til um hve mikið af sólarljósinu kemst í gegnum glerið).

 • Hlaupasokkar

Má bjóða þér blöðrur? Þá skalt þú endilega hlaupa í gömlum bómullarsokkum! 

Best er að hlaupasokkarnir séu hannaðir til að draga svita/bleytu frá húðinni og er þá ull eða gerviefni besta valið. Ég mæli með merinoull – t.d sérstaka hlaupasokka frá Smartwool sem eru með styrkingu á þeim pörtum sem mesta álagið er á (hælar og tær) og anda vel ásamt því að draga raka frá húðinni.  Ef þú verður svo heppin að fá að hlaupa yfir læki og blotna á fótunum þá hlýnar þér fljótt ef ull er næst húðinni. Hlaupasokkar eru ekki framtíðareign og það þarf að endurnýja þá reglulega, mér finnst besta merkið um að þeir séu búnir með sinn líftíma þegar þeir eru ekki lengur mjúkir (sama með göngusokkana ykkar). 

 • Höfuðljós

Sjarminn við að búa á Íslandi er að hér er engin árstíð eins og meðal þess sem breytist dag frá degi eru birtuskilyrðin. Stóran hluta ársins hlaupum við í ljósaskiptum eða myrki hér á landi og þá er gott að hafa gott höfuðljós (fæstir náttúrustígar eru upplýstir). Að sjá vel á hlaupum er öryggisatriði og þess vegna mæli ég með ljósum sem hafa að lágmarki 400lm (Lumen – birtumælieining) og ekki verra ef það er nálægt 1000lm. 

Eitt sem mér finnst mikilvægt að huga að við val á höfuðljósi er þyngdardreyfingin – það er t.d ekki gott að hafa það mjög framþungt á hlaupum og því betra ef að hluti þyngdarinnar er aftan á. Ef ljósið er mjög létt þá þarf ekki að pæla í þessu.

 

@Toppar
@Petzl
@Expspikes

Að hlaupa í góðum broddum eykur ekki bara öryggið heldur einnig upplifunina af því að hlaupa í klaka og snjó.

 

 • Hlaupabroddar

Broddar eru mikilvægasti öryggisbúnaðurinn sem við notum yfir vetrartímann. Að hlaupa í góðum broddum eykur ekki bara öryggið heldur einnig upplifunina af því að hlaupa í klaka og snjó – það er ekkert gaman að renna til og frá. 

Að hlaupa í lélegum broddum (t.d þeim sem fást í matvöruverslunum og bensínstöðvum og eru ekki hannaðir fyrir hlaup) eykur líkurnar á því að detta þar sem þeir veita falskt öryggi. Ég hef ekki töluna á því hve marga svona brodda ég hef tekið upp af stígunum (af því einhvern hefur misst þá af – og því þurft að klára hlaupið á einum broddaðum skóm (nema hinn hafi svo dottið af stuttu síðar!)) 

Það er mjög mikilvægt að náttúruhlaupabroddar haldist vel á skónum þar sem í hverju hlaupaskrefi geta þeir hæglega færst til.  Flestar útivistarverslanir selja brodda sem eru sérhannaðir í hlaup og ég hef til nokkurra ára notað NANO og EXO spikes frá Kahtoola. Í miklum klaka og í halla er gott að hafa ennþá grófari brodda undir skónum- þá nota ég svokallað esjubrodda.

 

 

Ef þið hafið einhverjar spurningar eða pælingar tengdar náttúruhlaupum sem þið viljið að ég skrifi um endilega sendið mér skilaboð á Instagram @helgafjallo

Sjáumst á hlaupum!

Helga María

Samstarf : Fjallakofinn