Broddar

Ég hef gengið og hlaupið þó nokkrar klukkustundir á broddum á ævinni minni og veit orðið hve miklu máli það skiptir að vera á góðum broddum við krefjandi aðstæður. Það eru til margar tegundir af broddum og þeir nýtast allir vel í ákveðnum aðstæðum - en það er okkar að læra að velja réttu broddana fyrir þær aðstæður sem við förum í. Hér fyrir neðan er listi yfir algengustu broddana og við hvaða aðstæður mér finnst þeir henta best.

það er okkar að læra að velja réttu broddana fyrir hverjar aðstæður

Hálkuvarnir/ gúmmíbroddar

Broddar sem fást í matvöruverslunum og bensínstöðvum henta vel til að nota innanbæjar í stuttum göngutúrum og til að fara inn og út úr bílnum þegar það er klaki á stígum borgarinnar. Þeir losna hratt af skónum og veita lítið grip og henta því alls ekki í fjallgöngur eða náttúruhlaup.

Negldir skór

Það er hægt að kaupa skó með nöglum í sólanum og einnig er hægt að setja nagla undir skó. Naglar henta vel fyrir hlaupaskó sem á eingöngu að nota í hlaup að vetrarlagi en það er ekki gott að hafa þá undir skónum þegar það er enginn klaki á stígunum. Aðalkosturinn er að ekki þarf að setja broddana undir skóna og þeir eru alltaf til staðar (broddarnir gleymast þá ekki heima). Naglarnir grípa ekki vel í miklum bratta á svellbunkum.

Hlaupabroddar(t.d Kahtoola Nanospikes) henta vel til götuhlaupa í hálku og í náttúruhlaupum á beinum stígum þar sem eru hálkublettir eða þunnur klaki/harður snjór. Þeir henta ekki vel til Náttúruhlaupa í bratta, á fjöllum eða miklum hörðum klaka eða miklum snjó.

 

Náttúruhlaupabroddar (t.d Kahtoola Exospikes) henta vel til náttúruhlaupa í hæðóttu landslagi, í miklum klaka og hörðum snjó. Þeir henta einnig vel til hlaupa í snjó þar sem gripið í sólanum á skónum virkar einnig (þar sem broddarnir hylja ekki allt gripið). Þetta eru broddar sem Náttúruhlaup mæla með fyrir sína hópa. 

Fjallahlaupabroddar (svokallaðir Esjubroddar) henta vel til vetrar náttúruhlaupa í fjalllendi og einnig á miklum hörðum klaka t.d í Heiðmörk. Þá skal EKKI nota í miklum hliðarhalla þar sem þeir geta auðveldlega runnið af skónum. 

Fjalla/jöklabroddar eru notaðir í fjalllendi, fjallaklifri og á jökli. Þeir henta mjög illa til náttúruhlaupa en vel til fjallamennsku og m.a. í hliðarhalla þar sem þeir eru vel fastir á skóna.

“Öryggi #1 Gaman #2“

Sjáumst hress úti!

Partý ON,

Helga María

Fjalla/jöklabroddar nýtast vel á skriðjökli