Hvað er Telemark ?

Margir fjallaskíðaiðkendur kannast við skíðastílinn telemark. Varla er til fegurri sjón en spengilegur, upppússaður og stæltur telemarkari að sveifla sér niður vorbráðabrekku á fögru maíkvöldi.
Líkt og með annað í skíðamennskunni koma og fara tískubylgjur eins og hendi sé sveiflað en í sumum tilvikum falla hlutir svo vel í kramið að ,,gömlum” kjarngóðum telemarkara yrði ekki vikið af skíðunum þó honum yrði borgað ágætis upphæð fyrir það. Ég felldi mig undir þá skilgreiningu í nokkur ár en fór með skottið á milli lappirnar í næstu útivistarbúð þegar skíðavertíðarnar voru farnar að vera langar og leiðsagnar umhverfið farið að verða tæknilegra. Því miður…

En hvað er telemark? Telemark á rætur að rekja til Noregs. Fólk ferðaðist milli staða á gönguskíðum með einn staf eða lurka, til að geta haft aðra hendi lausa t.d. til þess að bera birgðir. Um miðja 19. öld var maður að nafni Sondre Norheim frá Telemark í Noregi sem kynnti nýjan skíðastíl fyrir fólki en það sem er öðruvísi við þennan skíðastíl er það sem kallað er telemarkbeygjan, sem er í stuttu máli sagt framstig niður brekku. Til að geta farið niður brekku þannig þurfa bindingarnar að ganga út á það að þú sért með hælinn lausan. Þannig að festipunktur á bindingunni er í tánni og skórinn mjúkur þannig að hann gerir þér kleift að krjúpa og taka þessa frægu beygju.

Um 1970 fór þessi stíll að færa sig yfir höfin og til Bandaríkjanna. Skíðin voru mjó og löng, stafirnir langir og skórnir voru lágir leðurskór. Vegna eiginleika bindinganna, að vera með hælinn lausan má segja að þarna sé komið upphafið af fjallaskíðamennsku. En telemarkarar gátu arkað á skíðunum sínum lengra en lyftur náðu. Með tímanum þróaðist búnaðurinn og í dag eru t.d. nokkurnveginn eins skíði notuð fyrir telemark og fjallaskíði. Skórnir eru í dag stífari og úr plasti með hálfgerðan lið við táliðina og bindingarnar annarsvegar eins og þær upprunalegu en svo eru komnar nýjar bindingar í dag sem að eru kallaðar NTN – New Telemark Norm. Með þeim losnaru við hina upprunalegu telemark-tá sem er notuð til að festa sig í fyrrgreindu bindingarnar. Í þessum skóm er t.d. auðveldara að festa á sig brodda, þar sem táin er eins og á venjulegum fjallaskíðaskóm og gefur skíðaranum þá þægilegri möguleika t.d. á tæknilegri fjallaskíðamennsku og sumir segja að þetta geri telemarkbeygjuna auðveldari.

Undirrituð í telemarksveiflu
Undirrituð í telemarksveiflu
Kristinn Magnússon í telemarksveiflu
Kristinn Magnússon í telemarksveiflu

Telemarkbeygja yrði sjálfsagt aldrei lærð á prenti en til að útskýra hana örlítið eru hér skref listuð upp:

  1. Í byrjun hefur þú smá bil á milli fótanna þegar þú byrjar að setja þig í skíðastellingar. Hné eru örlítið beygð og hendur hafðar fyrir framan líkamann og þyngdarpunkturinn færist nær tábergi. Í telemarkinu er nokkurnveginn jöfn þyngdardreifing á báðar fætur en með því að hafa það í huga að þá nærðu fallegri og ákveðnari beygjum.
  2. Í beygjunni er það neðri fóturinn sem er þá fremri fóturinn í framstiginu, sá sem stjórnar hvert þú ferð. Hné er haft beint fyrir ofan tærnar og ökklinn einnig beygður fram sem gefur þér þessa framstæða stellingu sem þú leitast eftir. Byrjendamistök er að leggja of mikla áherslu á að setja þungan í annanhvorn fótinn en til að beygjan gangi upp þarf að vera jöfn þyngdardreifing á báðar fætur.
  3. Aftari fóturinn eða efri fóturinn er beygður niður á við, líkt og aftari fótur í framstigi, svo að þú nærð að lyfta upp hælnum og þarna er mikilvæg að spá í hvar þú setur þungan þinn eða hversu langt þú ferð niður. Þú vilt alls ekki hafa alla þyngdina eingöngu í tánum því þá getur fóturinn skautað undan þér við minnsta tilefni og þú missir jafnvægið. Best er því að hafa deildu þyngdinni aðeins aftar eða u.þ.b. við tábergið.
  4. Þegar þú skiptir á milli beygjustefnu, kemur staða þar sem skíðin eru jöfnuð áður en þú skellir þér niður í beygjustefnu í hina áttina. Hlutleysir þú þar með þyngdardreifinguna líkt og í skrefi 1.
Edda Björk á Eyjafjallajökli
Edda Björk Gunnarsdóttir á Eyjafjallajökli

Er það von mín að telemark lifi sem lengst í íslenskri skíðamennsku og fagna ég nýjum telemörkurum jafn vel og fyrstu snjókornum á veturnar. Ég tek hattinn ofan af fyrir þessum gallhörðum telemörkurum sem láta ekki sjá sig á öðrum skíðabúnaði og hafa haldið í telemarkhefðina frá því að hún barst til landsins.

Að ná góðri telemarkbeygju gefur þér óútskýranlega tilfinningu, gerir þig jafnvel að betri manni og fyrir utan það hversu þokkafull hún getur verið.

Frelsaðu hælinn og hugurinn fylgir!

Heimildir:

O’Bannon, A. og Clelland, M. (2008). Allen & Mike’s Really Cool Telemark Tips. Bandaríkin: Morris Book Publishing, LLC.