Hlaupasvæði í nágrenni Reykjavíkur

Útihlaup verða vinsælli með ári hverju og margir sem hafa fjárfest í utanvegahlaupaskóm á síðustu misserum. Því er ekki úr vegi að benda nýjum náttúruhlaupurum á skemmtileg svæði þar sem nota má skóna. Útihlaup eru skemmtileg og auðveld hreyfing - í raun er það eina sem þú þarft að gera er að reima á þig skóna, loka útidyrahurðinni og byrja að hlaupa (og það er ekkert sem bannar það að taka göngupásur inn á milli). Í nágrenni Reykjavíkur má finna mörg skemmtileg útivistarsvæði með stígakerfi sem bjóða upp á margar spennandi og skemmtilegar hlaupaleiðir. Má til dæmis nefna Heiðmörk, Laugardal, Öskjuhlíð og Vífilsstaðahlíð í Garðabæ. Allir geta fundið sér leiðir við hæfi hvort sem það er 1 km eða 50 km. 
Hér fyrir neðan eru hugmyndir af svæðum og hlaupaleiðum.

hægt er að kynna sér hin ýmsu svæði í nágrenni Reykjavíkur með því að skoða kort á ja.is - með því að þysja vel inn á svæðin má sjá fíngerðar línur sem eru stígakerfið.

Hlaupaleiðir í Heiðmörk

Engum þarf að leiðast í Heiðmörk, jafnvel þó svæðið sé heimsótt vikulega eða oftar. Það má velja nýja leið eða fara leið rangsælis og upplifa leiðir þannig á allt annan máta. Frægasta hlaupaleiðin er án efa Ríkishringurinn sem er 12 km hringur sem hefst og endar hjá Helluvatni (blá, græn og bleik leið á Heiðmerkurkorti). Önnur skemmtileg en minna þekkt hlaupaleið er oft kölluð litli Ríkishringurinn og er sú leið um 8 km (blá leið). 

Á þessari síðu má sjá Ríkishringinn 12 km og hala niður leiðinni.

 

Hlaupaleiðir við Vífilsstaðavatn

Margir vita kannski ekki að í kringum Vífilsstaðavatn og í Vífilsstaðahlíð eru mjög skemmtilegir stígar sem gaman er að hlaupa um. Jafnvel er hægt að hlaupa meðfram Vífilsstaðahlíð, inn Búrfellsgjá og upp á Búrfell. 

Hér má finna skemmtilega 6 km leið sem byrjar og endar við Vífilsstaðavatn – hlaupið er í gegnum hraun og skóg á ævintýralegum stígum og hiklaust hægt að mæla með henni.

Hlaupaleiðir í Laugardal

Laugardalur gleymist oft í umræðunni en þar eru nokkrir skemmtilegir stígar sem hægt að hlaupa um og alls ekkert leiðinlegt að hlaupa þar hring eftir hring og safna kílómetrum. Svæðið er mjög gróið og skjólsælt og því gott að leita þangað í vondum veðrum.

Á þessari síðu má finna kort af hlaupaleiðum í dalnum. 

Hlaupaleiðir í Elliðaárdal

Í Elliðaárdal er alltaf skjólsælt og gott að leita þangað ef það blæs hressilega á Höfuðborgarsvæðinu. Þar eru mjög góðir stígar og gaman að leika sér að því að prófa mismunandi stíga. Inni á ja.is má sjá alla stígana sem þar eru og fyrir þá sem vilja fara lengra þá eru skemmtilegir stígar í hlíðum Breiðholts sem liggja alla leið upp í Heiðmörk. 

@Búrfellsgjá
@Elliðaárdalur
@Heiðmörk

Mikilvægt að skoða veðurspá áður en lagt er af stað

Það er gott að hafa í huga að veðrið getur verið öðruvísi í miðbæ Reykjavíkur en í útjöðrum þess. Gott er að skoða veðurspá áður en lagt er af stað og ekki gleyma hlaupabroddum og höfuðljósi yfir dimmustu vetrarmánuðina!

Ég mæli með að þeir sem eru að byrja í náttúruhlaupum skelli sér á grunnnámskeið, læri tæknina og fái kynningu á nýjum hlaupasvæðum t.d má fara á námskeið hjá Náttúruhlaupum.

Góða skemmtun og við sjáumst á hlaupum!

Helga María 

Ef þið hafið einhverjar spurningar eða pælingar tengdar náttúruhlaupum sem þið viljið að ég skrifi um endilega sendið mér skilaboð á Instagram @helgafjallo