Uphill Athlete – frábært hlaðvarp fyrir alla fjallamenn og konur.

Ég elska að hlusta á góð hlaðvörp og ég elska líka að æfa svo það gefur augaleið að podkast um æfingar er algjört win win! Ég hef lengi fylgst með snillingunum í Uphill Athlete og frá árinu 2017 og óspart nýtt mér fróðleik, æfingaáætlanir og netfyrirlestra. Síðustu mánuði hef ég svo æft formlega undir þeirra leiðsögn með frábærum þjálfara að nafni Sam. Það er ein besta fjárfesting sem ég hef gert og smám saman tekst ég á við veikleika mína og þjálfunin er svo sannarlega áhrifarík. Uphill Athlete var stofnað af fjallamanninum (og íslandsvininum) Steve House og þjálfara hans Scott Johnston en sá síðar nefndi var þjálfari Steve á meðan hann vann mörg af sínum mögnuðustu afrekum. Reynslunni söfnuðu þeir saman og skrifuðu bókina Training for Alpinism sem að margir fjallamenn þekkja og hafa nýtt sér við að bæta árangur sinni. Þeir hafa bætt í bókaskrifin og hafa unnið með afreksmönnum eins og Kilian Jornet og fleirum. Þeir félagar eru virtir í bransanum og hjá þeim æfa einnig kanónur úr fjallaheiminum og hafa menn eins og stórstjarnan Alex Hannold og David Gottler notið leiðsagnar við að byggja sig upp í stærri verkefni. Svo má ekki gleyma að konurnar sem fóru á Kvennadalshnúk fengu prógram í boði Collab til þess að undirbúa sig fyrir verkefnið.

Hvað er betra en að taka rólega æfingu með gott hlaðvarp í eyranu. "Totally win win" aðstæður þar sem maður ræktar bæði líkama og ...heila.

Aftur að hlaðvarpinu sem ég var að minnast á við ykkur. Þetta er án efa eitt besta podkastið fyrir þá sem vilja ná lengra í fjallamennsku, fjallahlaupum, fjallaskíðum og klifri. Það er tekið á öllum þáttum s.s. Ofþjálfun, hraðaþjálfun, andlega þættinum og svo er fullt af góðum sögum frá reynsluboltum úr bransanum sem gaman er að hlusta á. 

 

 Ég hlusta oft þegar ég er annað hvort að elda eða taka rólegar æfingar og þá finnst mér ég vera gera sérstaklega gott mót þegar ég er bæði að æfa og læra eitthvað fróðlegt! Ég kann því líka vel að hlusta á fólk sem talar hreint út og hef fengið betri skilning á ýmsu sem hefur kannski staðið í vegi fyrir því að ég hafi náð ákveðnum árangri o.s.frv. 

Þetta er ekki bara fyrir þá sem vilja leggjast í lengri ferðir eða á há fjöll heldur er þetta líka stórgott fyrir metnaðarfulla “weekend warriors” og þá sem taka þátt í almennings mótum eða langar að stunda góðar æfingar meðfram fjallaprógrömum. 

 

Hér er frábæra vefsíðan þeirra: https://uphillathlete.com/ 

Og podkastið góða: https://open.spotify.com/show/2ISHjPD8PFIIxbNMgpX7df 

 

Svo eru nokkrir stórgóðir þættir úr hinum ýmsu áttum sem ég hef hlustað á og lært mikið af sem ég segi ykkur betur frá síðar. 

 

Yfir og út!