Föst á fjalli

Í þessari fyrstu færslu minni langar mig fjalla um málefni sem mér er mér mjög hugleikið. Ég ætla að fjalla um mikilvægi þess að skilja ekki búnaðinn sinn eftir með það í huga að taka hann á t.d. bakaleiðinni. Ástæðan fyrir því að málefnið er mér hugleikið er að snemma á mínum útivistarferli fékk ég að kynnast mikilvægi þess á dramatískan hátt. Ég margoft séð fólk skilja bakpokann sinn eftir við rætur Hvannadalshnúks, líklega til að létta sig fyrir lokakaflann sem jafnframt er brattastur og erfiðastur. Ég skil hugsunina mjög vel, þarna er maður orðinn þreyttur og það væri virkilega gott að losa sig við nokkur kíló rétt á meðan maður skýst upp á tindinn. Þetta eru náttúrulega ekki nema u.þ.b. 250 hæðarmetrar og það á bara rétt að skjótast upp, taka nokkrar myndir og svo beint niður aftur. En hvað er í bakpokanum? Fólk er væntanlega með hlýjan fatnað, einhverja orku og vökva. Það þarf ekkert mikið að gerast til þess að það sem átti að vera skot túr uppá topp verði að löngum tíma. Einhver gæti t.d. húrrað ofan í sprungu og það gæti tekið tíma að ná viðkomandi upp eða að einhver slasar sig og við þurfum að fá hjálp. Við þessar aðstæður gæti tíminn sem við ætluðum að nota til að toppa margfaldist og þá er gott að geta bætt á sig fötum og næringu. Aðstæðurnar geta þróast mjög hratt úr því að vera lítið óhapp sem einn úr hópnum varð fyrir í lífshættulega ofkælingu hjá öllum í hópnum.

Ástæðan fyrir því að málefnið er mér hugleikið er að snemma á mínum útivistarferli fékk ég að kynnast mikilvægi þess á dramatískan hátt.

11. september árið 2000, nákvæmlega einu ári fyrir hryðjuverkaárásina á Tvíburaturnana, lenti ég í atviki sem átti eftir að hafa mikil áhrif á mig. Ég var á 3. ári í íþróttafræði við Kennaraháskóla Íslands, á þessu námsári voru nokkur valnámskeið í boði og ég valdi m.a. útivist. Í þessu námskeiði fengum við meðal annars kennslu á áttavita og í kortalestri og svo var þriggja daga gönguferð sem ég hafði hlakkað mikið til. Fyrsta daginn gengum við úr Miðhúsaskógi í Brúarárskörð í grenjandi rigningu. Þegar komið var á náttstað var tjaldað, fólk var orðið ansi blautt en það kom ekki að sök því aukafötin í bakpokanum voru þurr og allir í topp málum. Á degi tvö var þvílík blíða, sól og lítill vindur. Við gengum sem leið lá um Hellisskarð og að Hlöðufelli þar sem til stóð að gista í skálanum á Hlöðuvöllum. En þegar þangað var komið, um kl 16, vorum við fimm nemendur í hópnum sem höfðum ekki fengið alveg nóg og fengum því leyfi frá kennurunum til að ganga á Hlöðufell.

Hlöðufell
Hlöðufell

12. september gengu svo leitarmenn fram á okkur sem var þvílíkur léttir því ástandið á okkur leit, vægast sagt, illa út.

Einhverjir í hópnum höfðu lesið að aðeins ein leið væri fær á á fjallið því það er hömrum girt á alla kanta. Við vorum öll í góðu formi og ætluðum bara rétt að skjótast upp og koma svo niður fyrir kvöldmat. Við skildum því bakpokana eftir í skálanum og röltum af stað. Við fundum ekki þessa leið á fjallið sem einhver hafði lesið um en komumst upp brattar skriður örlítið vestar en hefðbundin leið liggur. Við vorum nokkuð snögg að spóla okkur upp skriðurnar, en þegar við komum uppá brún sáum við að það var töluverður spotti í sjálfan toppinn. Veðrið var enn gott og við á góðum tíma þannig að við ákváðum að halda á toppinn. Þegar þangað var komið var eins og hendi væri veifað og það skall á svarta þoka. Við ákváðum því að drífa okkur til baka en þegar við komum fram á brún fjallsins tók á móti okkur hengiflug, við vorum rammvillt og höfðum enga hugmynd um hvar við vorum. Það var ekkert annað að gera en að ganga áfram og reyna að finna færa leið niður af fjallinu. Þegar þarna er komið við sögu var veðrið farið að versna mikið með töluverðum vindi og rigningu. Allstaðar sem við komum virtist ómögulegt að komast niður. Eftir um þriggja tíma leit án áragurs var farið að draga af fólki, það var orðið dimmt og rigningin var orðin að slyddu og við gerðum okkur grein fyrir því að þetta myndi ekki ganga. Við ákváðum því að reyna að komast í skjól og halda kyrru fyrir. Við fundum smá lægð í landslaginu og hlóðum lítinn skjólvegg úr grjóti til að minnka vindkælinguna sem var mikil og við lítið klædd og orðin rennandi blaut. Nú var bara að sitja þétt, reyna að halda á okkur hita og bíða eftir að vera bjargað. Við lögðum mikið uppúr því að enginn sofnaði, við spjölluðum, sungum og reyndum að hughreysta hvert annað. Af og til stóðum við upp og reyndum að fá í okkur hita en þegar á leið vorum við hætt að geta haldið jafnvægi og þegar fór að líða að morgni voru einhverjir farnir að sjá ofsjónir. Mikið björgunarlið hafði verið kallað á vettvang og þyrla landhelgisgæslunnar var í viðbragðsstöðu. Um kl 9 að morgni þann 12. september gengu svo leitarmenn fram á okkur sem var þvílíkur léttir því ástandið á okkur leit, vægast sagt, illa út. Eftir að hafa fengið þurr föt, súkkulaði og heitt að drekka gátum við staulast á fætur og þó við værum stirrð í fyrstu tókst okkur öllum að koma okkur niður fyrir eigin vélarafli.Það má með sanni segja að þarna hafi farið mun betur en á horfðist. Þetta átti bara að vera skottúr á toppinn og aftur niður fyrir mat en hefði hæglega getað endað með fimm dauðsföllum. Nóttin á fjallinu hefði eflaust verið betri ef við hefðum verið með bakpokana með, þá hefðum við getað klætt okkur betur og bætt á orkubirgðarnar.

Þangað til næst

Smári