Fossavatnsgangan í fyrsta sinn

Tvær og hálf vika í start, síðasta langa æfingin á helginni og formið er að smella, eða hvað?

Það eru margir að þreyta Fossavatnsgönguna í fyrsta sinn og fiðrildið í maganum er óbærilega stórt. Hvernig datt mér þetta í hug, hvað ef að ég næ ekki að klára? Ég ætla aðeins að fara yfir nokkur praktískt atriði sem mér dettur í hug að komi sér vel fyrir þá sem eru að stíga í fyrsta sinn í Fossavatnsgöngusporið. Þið eruð væntanlega með margar spurningar en mig grunar líka að þið séuð búin að vinna heimavinnuna ykkar vel og vitið ca hvað þið eruð að fara út í.

Stress er eðlilegt, það merkir að þið viljið standa ykkur vel

En hér eru nokkur atriði sem geta lækkað stress stuðulinn hjá ykkur.

Það er eðlilegt að pínu stress geri vart við sig og óvissa um að æfingar undanfarinna mánaða skili þeim árangri sem til er ætlast. Ef þið hafið æft markvisst þá er gott að rifja það upp með því að skoða æfingadagbókina, hvort sem hún er á Strava, í myndaalbúminu í símanum eða í dagbók. Þar getið þið dregið fram erfiðar æfingar  og skoðað hvað þið hafið verið dugleg. Hvernig þið eruð búin að leggja inn fyrir þessari þrekraun og ég lofa því að sjálfstraustið eykst við að sjá hvað þið hafið áorkað.

Það eru s.s. tvær vikur í gönguna. Eftir síðustu löngu æfinguna er eina leiðin til að bæta formið að hvíla. Hvíla hæfilega mikið en það getur verið erfitt fyrir hausinn. Sérstaklega síðustu dagana þegar allt er að smella saman og líkaminn öskrar á hreyfingu og átök. Líkaminn er úthvíldur og þráir að komast á startlínuna. En ekki láta undan, takið virka hvíld og leyfið líkamanum að safna upp spennu og óþreyju eftir því að takast á við 50k svo að hann geti sýnt sitt besta.

Hvað á að vera í bakpokanum, hvernig og hvenær ætla ég að næra mig

Þegar þetta stutt er í göngu ætti fatavalið að vera komið á hreint, þessi föt fyrir þetta veður auka lag fyrir svona veður. Engin ný föt sem gætu valdið særindum eða óþægindum. Við notum bara það sem við vitum að virkar.

Bakpokinn og næringin er á sínum stað. Hvað á að vera í bakpokanum, hvað ætla ég að borða á keppnisdag og hvernig ætla ég að næra mig á leiðinni.  Það er mikilvægt að vera búin að æfa næringarinntökuna, ákveða hvenær á að næra sig og standa við það. Margir fá í magan af öllu sykurátinu í keppninni og þá er gott að hafa prófað hvaða næring virkar best. Það er líka auðvelt að gleyma að næra sig og drekka, þá getur verið of seint að hressa kroppinn við. Mikilvægt er að vera búinn á ákveða hvar á að drekka og hve mikið. Vökva sig og næra áður en líkaminn kallar á það.

 

Viku fyrir göngu ætti að klippa táneglurnar því langar neglur gætu valdið óþægindum í langri göngu. Ekki bíða með það þar til deginum áður því ef þið klippið eitthvað óvart sem ekki á að klippa þá er smá tími til að leyfa því að gróa.

50km og 1250m hækkun

Fossavatnsgangan er langt ferðalag með allskonar hindrunum. Heildarhækkun er 1250m og hafa hálsarnir og brekkurnar valdið ótta hjá mörgum. En í raun er þetta ekki svo hræðilega erfitt, þetta er bara eins og að borða fíl, einn biti í einu.  Hálsarnir og brekkurnar líta illa út í fjarlægð og sú hugsun læðist að manni að leggjast niður og grenja þegar maður sér þá. Gott er að kynna sér leiðina á fossavatn.is hvað er langt á milli drykkjastöðva, hvenær koma hálsarnir og brekkurnar, hver eru tímamörkin.

Í ár eru engar drykkjarstöðvar þannig að allan drykk og næringu þarf að taka með sér.

Það er eðlilegt að á svo langri leið eins og Fossavatnsgangan er að maður spyrji sig hvers vegna maður standi í þessu skíðaspori og hvernig maður komi sér út úr þessu rugli. Þá er gott að vera búin að hugsa peppræðuna á sjálfan sig og vera með möntruna klára „ég er þrautgóð, sterk og  ét brekkur í morgunmat“ því eina leiðin út úr þessu er leiðin í markið.

„ég er þrautgóð, sterk og  ét brekkur í morgunmat“

Hver ætlar að græja skíðin ykkar, ætlið þið að gera það sjálf eða fá einhvern til þess. Það eru flestir á skinni þessa dagana og þá þarf aðeins að huga að rennslis áburði. Ef þið ætlið ekki að gera þetta sjálf fáið þá einhvern sem þið treystið til að bræða undir skíðin. En munið að þið ein berið ábyrgð á skíðunum ykkar, ef að allt fer í skít þá þýðir ekkert að kenna áburðarþjóninum um

Sumum finnst gott að vera með tónlist eða hljóðbók í eyrunum, athugið að s.k.v. reglum göngunnar er það bannað því þið þurfið á öllum ykkar skynfærum að halda. Þið verðið bara að spjalla við næsta mann.

Það eru ekki tímamörk í ár en það þýðir ekki að þið eigið að taka marga daga í þetta. Finnið ykkar tempó og haldið því. Ef þið eruð heppin þá finnið þið einhvern sem er á sama hraða og þið getið þá gengið sama. Það borgar sig ekki að bíða eftir vinkonu/vini eða reyna að halda í einhvern. Finnið ykkar hraða og haldið honum.

Engin flaga enginn tími. Þegar þið klæðið ykkur að morgni keppnisdags skulið þið setja á ykkur númer og flögu. Ekki geyma það fram á síðustu stundu því það getur auðveldlega gleymst í spenningnum.

 

 

 

Ef það eru frekari pælingar þá er ykkur velkomið að heyra í mér, ég var einu sinni á startlínunni í fyrsta sinn.

Svo er það mikilvægasta í öllu ferlinu. Það er að njóta, vera meðvituð þegar þið eruð við það að bugast og muna að þið getið þetta og þegar þið komið yfir marklínuna þá lyftið þið höndum, brosið og fagnið eins og sannir sigurvegarar