Fjölskylduklifur

Gleðilega páska kæru lesendur! Páskarnir hjá okkur hérna í Slóveníu hafa verið rólegir enda allsherjar „lockdown“ í gangi í landinu. Við erum þó heppin með að við megum fara á milli innan sýslunnar okkar á ákveðnum tíma dags. Við erum ekki síður heppin með bakgarðinn okkar sem er drauma fjársjóðskista fyrir ævintýraþyrsta krakka á öllum aldri 😉 Við erum dugleg að nýta okkur umhverfið enda allir á heimilinu með mikla hreyfiþörf.

Skemmtunin heima þegar allir byrja á að taka saman búnaðinn sinn og gera bakpokann klárann og velja sér nesti.

Eitt af því sem við gerðum um páskana var að kíkja í klifur hérna í nágrenninu á stað sem býður upp á leiðir fyrir öll getustig. Það er fátt skemmtilegra en að eiga góða stund þar sem allir fá að njóta sín. Strákarnir sem eru 5 og 9 ára eru nokkuð sprækir í klifrinu enda byrjuðu þeir snemma og stundum erum við þrjár kynslóðir saman úti á örkinni. Þetta eru stundir sem gefa og mikið ræddar við kvöldmataborðið.

Skemmtunin heima þegar allir byrja á að taka saman búnaðinn sinn og gera bakpokann klárann og velja sér nesti. Síðan er haldið af stað og í göngunni að svæðinu er mikið spjallað og pælt í hver eigi að byrja og hvernig leiðin sé.

Að þessu sinni heimsóttum við svæði sem er skemmtilegt að leika á milli þess sem maður spreytir sig á klettunum eða á meðan fullorðna fólkið fær að skreppa eina og eina leið eða svo. Frábærar stundir þar sem allir fá að njóta sín. Það er óendanlega gaman og gefandi að sjá gormana lesa leiðina og yfirvinna hindranirnar sem mæta þeim.

Klifur hefur marga kosti, sérstaklega fyrir börn þar sem það reynir á ákveðna úrræðasemi, styrk, úthald, jafnvægi og eflir samhæfngu og hreyfiþroska. Börnum er sérstaklega eðlislægt að klifra og aldrei of seint fyrir fullorðna fólkið að byrja!

Við mælum með þessu fyrir alla og bendum á að Klifurhúsið og Fimleikafélagið Björkin bjóða uppá æfingar og námskeið fyrir börn.

Góðar stundir,

Vilborg Arna

Feðgar að gera sig klára