Fjölskylduferð í Kerlingarfjöll

Við Hallbera, konan mín, höfum alla tíð lagt mikið upp úr því að taka strákana okkar Friðrik og Loga með í þá útivist sem við stundum. Árið 2016, þegar strákarnir voru átta ára,fundum við að okkur langaði til að stunda meiri eða kannski frekar reglulegri útivist með þeim. Eftir miklar vangaveltur settum við okkur það háleita markmið að gista úti 52 nætur á einu ári. Við ætluðum s.s. að gista úti að meðaltali einu sinni í viku í heilt ár, einhverjar vikur myndum við ekki gista úti en oftar í öðrum og líklega meira yfir sumartímann. Í stuttu máli náðum við þessu en það tók okkur þó 13 mánuði. Stundum var bara gist í garðinum en stundum var útigistingin líka partur af ferð. Eftir á að hyggja spenntum við bogann kannski full mikið þ.e. þetta varð oft að svolítilli kvöð. Þetta var þó mjög gaman og allir skemmtu sér vel og lærðu helling. Skemmtilegasta ferðin og sú eftirminnilegasta að mínu mati var ferð í Kerlingarfjöll í júlí 2016. Á Kili á leið í fjöllin var stoppað við stór grjót og glímt við þau. Á degi tvö fórum við u.þ.b. hálfa leið upp Fannborgina og skíðuðum niður og keyrðum svo inn á Hveravelli í bað. Á þriðja degi var hjólað hringinn í kringum Ásgarðsfjall og á fjórða degi fórum við svo aftur á skíði og náðum að toppa Fannborgina í þetta sinn.

það skiptir meira máli að þetta sé skemmtilegt en að ná t.d. einhverjum toppi.

Í þessari ferð gistum við í Helsport Varanger lavvu tjaldinu okkar sem er alger snilld í svona ferðum. maður getur verið með nóg af drasli með sér því það er endalaust af plássi og svo er frábært að geta staðið uppréttur í því. Eftir að í tjaldið var komið seinnipartinn, var spilað eða leikið með bolta

Við höfum oft verið spurð hvernig við förum að því að ná strákunum með í þetta og hvort það sé ekki erfitt. Já þetta getur verið erfitt, sérstaklega að koma þeim af stað og það er alveg vælt. Lykillinn af því að ná börnum með í þetta er að vera slakur á markmiðunum þ.e. það skiptir meira máli að þetta sé skemmtilegt en að ná t.d. einhverjum toppi. Svo má alveg taka margar pásur og svo er að sjálfsögðu rosalega mikilvægt að hafa eitthvert lostæti með til að lauma í börnin (og sjálfan sig) á leiðinni.

Eftir að heim var komið setti ég saman myndband úr ferðinni, þetta átti bara að vera stutt en endaði í níu mínútum. Myndbandið fangar stemninguna vel og er vonandi hvatning til foreldra um að taka börnin með í fjörið.

Sjáumst á fjöllum með börnin með

Smári