Fjallaform vol.1 – Double Trouble, æfing fyrir langa göngu

Nú þegar fjallgönguáhugi landans hefur sjaldan verið meiri eru ófáir sem stefna á að klífa hæstu tinda landsins. Þetta eru langar og krefjandi göngur og eftir því sem formið er betra að þeim mun betur nýtur maður ferðarinnar. Í þessum löngu göngum erum við að vinna á díselvélinni og reynum að halda jöfnum hraða svo að orkunýtingin okkar sé sem allra best. Við erum ekki mikið að spretta úr spori heldur skiptir máli jafnvægið máli hér, sérstaklega fyrir þá sem eru ennþá að læra inn á sjálfa sig í þessum aðstæðum. Gönguhraði einstaklinga er misjafn og ýmislegt sem spilar þar inní sumir fara hratt yfir á meðan aðrir þurfa að hafa sig alla við. Það sem skiptir máli fyrir upplifun okkar er að þjálfa okkur nægjanlega mikið svo okkur líði vel á ferðinni innan þess ramma sem við ætlum okkur. Þessi rammi er svo misjafn milli göngumanna og kvenna og mikilvægt að forma hann út frá eigin getu og löngunum en ekki öðrum.

Double Trouble er ein af þessum æfingum sem ég hef stundað um árabil til þess að fá bæði „volume“ og hæðarmetra í fæturnar

Lífskraftskonur á Double Trouble æfingu fyrir Hvannadalshnúk í apríl 2021
Undirrituð í Slóvensku Double Trouble

Double Trouble er ein af þessum æfingum sem ég hef stundað um árabil til þess að fá bæði „volume“ og hæðarmetra í fæturnar sem er mikilvægt þegar á að reyna við dagleiðir sem bjóða uppá allt að 2000 metra hæðahækkun.  Á Íslandi eru ekki svo ýkja margar æfinga leiðir sem bjóða upp á 1000 metra hækkun eða meira á meðan í Ölpunum tíðkast oft að skreppa í þúsund verticals það þarf því oftast að fara fleiri en eina ferð til þess ná því.

Ég nota Esjuna oft fyrir Double Trouble æfingu og á þá við að fara tvær ferðir. Þetta er líka vinsæl æfing hjá þeim sem eru að æfa fyrir lengri utanvega- og fjallahlaup. 

Þetta segir sig nokkuð sjálft, þið skellið í eina ferð upp að Steini og svo aðra þegar þið komið að neðsta skiltinu niður við Mógilsána, þessu sem er rétt við brúnna.  Þetta telur um 1200 hæðarmetra og 12,5 km í vegalengd. Alvöru æfing það! Fyrir flesta er þó ekki æfing til að gera á hverjum degi heldur góð til að toppa vikuna en fer þó alveg eftir því hvar þið eruð stödd í formi og æfingum.

Það er hægt að gera þetta í tveimur útgáfum. Sú fyrri felst í því að fara á hárri ákefð upp að Steini í fyrri ferðinni og finna fyrir smá þreytu þegar haldið er af stað í næstu ferð. Svoleiðis sprenjuæfing er fyrir þá sem hafa góðan grunn og eru að stunda æfingar.

Hin er að fara allan tímann á zone 2. sem er c.a. spjallhraði í fjallgöngu, þ.e. ef þið getið formað heila setningu án þess að slíta hana mikið í sundur að þá eruð þið á réttu róli. Ef spjallið er leikandi létt að þá eruð þið að fara of hægt og ef þið getið bara sagt eitt orð í einu að þá erum við komin upp fyrir þá ákefð sem skilar okkur mestum árangri.  Í heilsuúrum er oft búið að áætla þessi zone fyrir okkur og þau gefa ágætis viðmið en best er auðvitað að mæla þetta nákvæmlega ef þið ætið að ná árángri og færni til lengri tíma og viljið byggja upp formið ykkar.

Almennt viljum við æfa sem mest á zone 2 á meðan við erum að byggja grunninn með intervölum og sprengjuæfingu einu sinni í viku. Svo þróast ákefðin og æfingamynstrið breytist í takt við það. Við fjöllum nánar um það allt saman síðar.   

Þessi æfing hefur marga kosti og einn af þeim hefur verið nefndur hér að ofan að fá volume og hæðarmetra í lappirnar. Það að fara aðra ferð er líka gott fyrir hugann, að halda áfram þegar við erum vön að fara heim, hressandi að skella í aðra ferð og brjóta út af vananum.  Ef þið takið fyrri ferðina á hárri ákefð að þá er þetta góð mjólkursýruæfing, þ.e. að læra inn á hvernig líkaminn ykkar vinnur og hvar ykkar þröskuldur er. Það er oft erfitt að ná líkamanum úr mjólkursýruástandi ef maður fer yfir mörkin og gott að kynnast því svo maður þekki mörkin og tilfinninguna og jafnframt komist hjá því að gera þau mistök í langri ferð.

Æfinguna má svo auðvitað aðlaga að allskonar fjöllum og hér þar sem ég bý í Slóveníu þarf ég að fara þrjár ferðir á “Esjunni minni” til þess að ná 1200 metrum og vegalengdin er þá örlítið lengri en á Esjunni. Algörlega ein af mínum go-to æfingum og ég mæli með fyrir alla sem vilja bæta þolið.

.

Síðustu hæðarmetrarnir upp á Hvannadalshnúk
Gott að njóta útsýnisins af toppnum