Bolvíkskufjöllin á utanbrautarskíðum

Óvissuferð á fjöllum

“Hugsið ykkur hvað við erum heppin. Stukkum bara út, vitum ekki alveg hvert við erum að fara en erum hér nánst í garðinum okkar en samt á ókunnum slóðum í ótrúlegu landslagi og upplifun sem geymist en ekki gleymist” Einhvern veginn þannig voru samræðurnar hjá okkur þegar að við komum upp úr Tungudal sem gengur inn úr Bolugnarvík á annan dag páska. Kata og Steini vinir okkar Daníels höfðu boðið okkur í túr. Það er ekki snjóþungt hér fyrir vestan um þessar mundir en við höfum snjó þar sem hann á að vera, uppi á fjöllum. Við höfðum byrjað með skíðin á bakinu en fundum fljótlega snjólænur, það þarf ekki mikið.

Stefnan var á Galtarvita og til baka en þegar við vorum komin af  stað var lélegt skyggni og ekki spennandi að skella sér þangað. Við stóðum því upp á fjallinu á einhverskonar krossgötum, horfðum ofan í Súgandafjörð, langur og fallegur fjörður girtur háu klettabelti og veltum fyrir okkur í muggunni hvert væri best að halda.

Við héldum af stað eftir hásléttunni í rúmlega 600 metra hæð sáum nánast ekkert nema sléttuna hún var svo víð. Þetta var einhverskonar heimskauta landslag. Hrjóstrugt veðurbarið, eins veðurbarið og landslag verður sennilega, þarna getur orðið hvasst.

Það var þarna sem hann heltist yfir okkur valkvíðinn yfir því hvar ferðin skyldi enda. Við gátum rennt okkur ofan í Skálavík, farið ofan í Súgandafjöð, gengið yfir á Botnsheiði og komið ofan í Skutulsfjörð. Stefnan var tekin eins og áður sagði í átt að Ísafirði enn ekki búin að velja hvar væri farið niður sjáum til.

Við gengum eftir Grárófuheiði. Veðrið var alskonar, þó mest snjómugga og sáum við ekki alltaf hvert við vorum að fara en annað slagið byrti til og við sáum yfir á Jökulfirðina. Útsýnið er magnað á þessum fjöllum þegar að það lét það eftir okkur að sjá lengra en að næsta hól. Færið var líka alskonar, skari í bland við nýjan snjó og á köflum mosi og lyng.

Það er eiginlega skammarlegt hvað maður er glannalega kærulaus með skíðin sín. Smá malarkambur í bland við lyng og mosa bítur ekkert á, maður labbar bara yfir og lætur sem ekkert sé. Utanbrautarskíðin eru ekki húsgagn sagði einhver. Þetta er vinnutæki. Það á vel við í svona aðstæðum þar sem skíðunum er boðið upp á allt mögulegt, skara, steina fara yfir á og læki, gras og mosa.

Utanbrautarskíðin eru ekki húsgagn, þau eru vinnutæki

Eftir að hafa gengið eftir fjallinu endilöngu komum við að gili. Ef við hefðum farið til hægri hefðum við komið niður í Súgandafjörð, beint áfram var til Ísafjarðar og til hægri niður í Syrðidal. Aftur valkvíði. Ákáðum að setjast niður fá okkur nesti og meta aðstæður. Það var freistandi að halda áfram og koma niður í Skutulsfjörðinn, geta labbað heim að dyrum.

Að ending var ákveðið að renna sér niður í Syðridal. Bolungarvík var upphafið og endir als þennan dag. Við renndum okkur niður Hanahólsdal, langt rennsli og við skáuðum brekkurnar þannig að úr varð endalaust að manni fannst ferðalag niður. Þegar við nálguðumst leiðarenda var farið að huga að því að komast heim. Sendum SMS bæjarstjórann í Bolungarvík og báðum hann að sækja okkur, það er þannig sem þetta virkar á landsbyggðinni.

Þetta var ekki löng ferð, rúmir 14 km en ágætis hækkun og erfiðar aðstæður og mjög skemmtileg ganga. Í betra færi og veðri hefði verið gaman að fara alla leið heim á Ísafjörð. Við vorum sennilega hálfnuð þangað. Það bíður betri tíma sem og allar hinar leiðirnar sem við erum með augastað á.