Af hverju náttúruhlaup?

Af því að náttúruhlaup eru gefandi bæði fyrir líkama og sál. Breytilegt landslag reynir á flesta vöðva líkamans og á sama tíma ert þú umkringd/ur róandi náttúru sem dregur úr þér alla streitu og gleður sálina. Ef þú hefur gaman að hlaupum og útivist þá ætti þér ekki að leiðast á hlaupum í náttúrunni þar sem fjölbreytnin er óendanleg og alltaf hægt að finna ný svæði til að hlaupa um og skoða eða jafnvel fara sömu leið en í öfuga átt. Veðrið er síbreytilegt og árstíðirnar einnig og því er ekkert hlaup eins. Það sem gerir náttúruhlaupin ólík götuhlaupunum er að í þessu sporti er minna hugsað um pace og tíma. Til dæmis eru 10 km á Esjunni ekki eins og 10 km í Heiðmörk eða 10 km á malbikuðum stíg. Það sem flestir setja fókusinn á í náttúruhlaupum er að njóta og hafa gaman - flestir ganga/arka upp brekkur og jafnvel niður ef þær eru mjög brattar.

Hér eru nokkrar góðar ástæður til að prófa náttúruhlaup.

Fyrir líkamann

Landslagið á stígum er síbreytilegt – upp, niður, yfir hindranir, sandur, snjór.. og svo mætti lengi telja. Breytilegt landslag styrkir líkamann á annan hátt en einhæfari frændi hans – Götuhlaupin. Mjúkt undirlagið veitir aukna dempun sem dregur úr álagi á liði og hindranir á leiðinni styrkja vöðva sem við notum ekki mikið í daglegu lífi. Eins og allir vita er súrefni manneskunni nauðsynlegt og þú færð stóran skammt af því í útihlaupum. Og að lokum þá er það marg sannað að útivera gerir okkur mjög gott – streita og áhyggjur renna af okkur þegar við erum umkringd náttúru. 

Fyrir félagsskapinn

Hreyfing og útivist auka flæði gleðihormónsins – endorfín og því er mikið hlegið og grínast á hlaupum. Þess vegna er alltaf gaman að hlaupa í hóp og ég kalla samhlaup og keppnir hlaupapartý! Ég hef ekki ennþá hitt leiðinlegann hlaupara og þegar hlaupinu er lokið hellist stór skammtur af gleðihormóninu yfir okkur og þá er sko gaman að vera til!

@Tröllaskagi
@Árstíðahlaup
@Heiðmörk

 

Fyrir útivistina

Það eru svo margir fallegir staðir til sem aðeins er að hægt að heimsækja á fótum. Að geta farið 20-50 km á einum degi lengir listann yfir þá staði sem heimsækja má á degi og óþarfi að pakka þungum búnaði í bakpoka. T.d hlaupa margir Laugaveginn á einum degi en það er yfirleitt 3-4 daga gönguferð. Það er líka eitthvað alveg einstakt við það að ferðast á hlaupum – hlaupin magna upp náttúruupplifunina (líklega hjálpar endorfínið!)

Fyrir búnaðinn

Það er auðvelt að byrja að stunda náttúruhlaup þar sem þau krefjast ekki mikils nauðsynlegs búnaðs, í raun þarf bara góða hlaupaskó sem styðja vel við fótinn og veita gott grip. En svo eins og í öðrum útivistar-sportum er hægt að fá alls konar spennandi og skemmtilegan viðbótar búnað. Búnaðurinn sem fylgir náttúruhlaupum er litríkur og töff og því gaman að klæða sig upp og fara út að hlaupa! Ég ætla að skrifa meira um búnað í öðrum pósti – stay tuned!

Að hlaupa er ekki alltaf auðvelt - en það er alltaf þess virði!

Sjáumst hress á hlaupum!

Partý ON,

Helga María

 

@Árstíðahlaup