Arctic Bedding í vetrarferðina

Þegar ég var að undirbúa Suðurpólsleiðangurinn kynntist ég frábærri lausn fyrir svefnkerfi í púlkuferðum sem kallast Arctic bedding. Í stuttu máli er þetta nylonpoki sem er aðeins breiðari og lengri en dýna og svefnpoki í fullri lengd. Pokinn er renndur á þremur hliðum og því hægt að opna hann alveg og á botninn leggur maður dýnurnar sínar og pokann ofan á, svo rennir maður bara fyrir og festir vel og vandlega ofan á púlkupokann sinn. Svona kerfi sparar manni bæði tíma og fyrirhöfn því eftir að skíðadeginum líkur að þá skutlar maður þessu bara inn í tjaldið rennir frá og volla, allt klárt.

Arctic bedding sparar manni bæði tíma og fyrirhöfn

Það er líka frábært að geta haft beddingið lokaða en samt með góða einangrun fyrir bossann á meðan maður gerir allt klárt í tjaldinu. Pokarnir eru ekki ætlaðir til svefns en auðvitað er hægt að tylla efri partinum af pokanum yfir sig ef það er kalt eða jafnvel einhver leki, annars geymi ég efripartinn bara snyrtilega rúlluðum við hliðina á dýnunni.

Eitt af því sem mér finnst frábært við að nota kerfið fyrir utan þægindi og tímasparnað er að pokinn fær að lofta yfir daginn og því safnast síður raki í hann. Ef það er væta úti og hætta á að það blotni í gegn (pokarnir eru vatnsheldir upp að vissu marki) að þá set ég Arctic Bedding-ið ofan í púlkupokann minn til vara. Svo til vara vara að þá eru það gömlu góðu svörtu ruslapokarnir en flestir sem ferðast á Íslandi þekkja þau trix.  

Arctic bedding á púku
Arctic bedding

Það eru í dag til allskonar gerðir af því bæði úr þykku og þunnu efni, með stöngum sem hægt er að breyta í stól og ýmislegt fleira. Ég er mjög fókuseruð á vikt, einfaldleika og hagkvæmni þegar ég er að velja mér búnað svo ég hef alltaf notast við einföldustu útgáfuna sem er þunnur nælonpoki með tveimur vösum á toppnum. Annar þeirra er renndur og ég hef þá hlið pokans næst mér og geymi þar ýmislegt sem ég gæti þurft að grípa í s.s. húfu, vettlinga, bita o.sfrv. Hinu hólfinu er lokað með frönskum rennilás og þar geymi ég oft skelina mína. Sumsé ég hef það nauðsynlegasta nálægt mér svo ég þurfi ekki að grafa ofan í púlkuna eftir því þegar á þarf að halda. Svo gott að vera skilvirkur og vel skipulagður í svona ferðum því það sparar manni mikinn hausverk og töf.

Eitt af því sem mér finnst frábært við að nota kerfið fyrir utan þægindi og tímasparnað er að pokinn fær að lofta yfir daginn og því safnast síður raki í hann

Einhverjar verslanir á Íslandi eru komnar með svona poka til sölu og ég mæli eindregið með svona lúxusþægindum!

 

p.s. hjá Piteraq merkinu er hægt að fá púlkupoka og Arctic bedding sem passa vel saman og hannað fyrir hinar sívinsælu Paris púlkur.

Klassísk samsetning af Parisar púlku og sérsniðnu Piteraq púlkupokunum

Hér má svo sjá félaga okkar frá Noregi fara yfir alla helstu kosti þess að nota Arctic bedding og í kaupbæti lumar hann á nokkrum hagnýtum ráðum í góðaráða bankann því eins og flestir vita a þá er gott að geta hugsað í lausnum þegar í óbyggðirnar er komið.

Góða ferð!